Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi samgönguráðherra, segir að skýrslu, sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sumarið 2010 og fjallaði m.a. um mögulega arðsemi af veggjöldum um Vaðlaheiðargöng, hafi ekki verið stungið undir stól. Hún hafi þannig verið aðgengileg á vefsíðu Hagfræðistofnunar sennilega frá upphafi og einnig verið á meðal gagna sem kynnt voru lífeyrissjóðunum þegar rætt var við þá um aðkomu að byggingu ganganna.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að svo virðist sem skýrslan hafi hlotið þau örlög þar sem niðurstöður hennar hafi ekki verið birtar opinberlega þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir slíkri skýrslu af hálfu Alþingis frá stofnuninni. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur beðið eftir heimild frá forsætisnefnd þingsins síðan fyrir jól til þess að óska eftir skýrslu frá Hagfræðistofnun um Vaðlaheiðargöng.
Umrædd skýrsla er vistuð á vefsvæði Hagfræðistofnunar og er hægt að finna hana með hjálp leitarvéla ef viðkomandi veit titil hennar og getur þar með leitað að honum. Hins vegar er skýrslan ekki aðgengileg á vef stofnunarinnar á neinn hátt og þannig er hana t.a.m. ekki að finna í lista yfir efni sem hún hefur birt opinberlega.
Sveinn Agnarsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, staðfestir að skýrslan hafi ekki verið birt af Hagfræðistofnun og hafi þannig ekki verið aðgengileg á vef stofnunarinnar. Umrætt verk hafi farið í sama feril og önnur slík þar sem verkkaupi, í þessu tilfelli samgönguráðuneytið, hafi beðið um að skýrslan væri unnin og það væri síðan hans að ákveða með hvaða hætti hún væri nýtt.