„Við gerðum mestu breytingar á skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi sem gerðar hafa verið. Segja má að megineinkennin á þessum breytingum hafi verið meiri valddreifing og aukið lýðræði innan flokksins,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Ein af þeim breytingum sem gerðar voru á skipulagsreglunum var að stofna nýtt embætti 2. varaformanns flokksins við hlið formanns og varaformanns, en honum er meðal annars ætlað að sinna verkefnum sem snúa að miðstjórn flokksins. Gert er ráð fyrir að kosið verði í embættið á flokksráðsfundi sem fram fer í mars næstkomandi.
„Ég sé þessa breytingu sem spennandi tækifæri til þess að breikka forystu Sjálfstæðisflokksins og auka möguleikana á að hafa snertifleti við félögin í flokknum og flokksmenn alla. Markmiðið er auðvitað að halda úti öflugra flokksstarfi,“ segir Bjarni en gjaldgengir í embættið eru allir flokksbundnir sjálfstæðismenn. Eftirleiðis mun þó landsfundur kjósa í það samkvæmt nýjum skipulagsreglum.