Hagsmunasamtök heimilanna vilja að forseti Íslands þrýsti á stjórnvöld um að tekið verði á vanda heimilanna. Samtökin vísa til 25. greinar stjórnarskrárinnar þar sem segi að forsetinn hafi heimild til að „leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta”. Samtökin hafa farið fram á fund með forsetanum.
Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með þingmönnum síðdegis í gær í þeim tilgangi að ýta við þeim sem áhuga hafa á því að taka höndum saman á Alþingi og setja fram þingmál um kröfur samtakanna sem snúa að leiðréttingum lána, afnámi verðtryggingar eða þjóðaratkvæðagreiðslu um þær. Þeir þingmenn sem hingað til hafa lýst yfir áhuga að taka þátt í að setja málið á dagskrá þingsins koma allir úr stjórnarandstöðu.
Nú hafa rúmlega 37 þúsund skrifað undir í undirskriftasöfnuninni á heimasíðu samtakanna.