Vilji hjá Íslandi til að semja

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að finna lausn á makríldeilunni. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við fishnewseu.com.

Steingrímur segir að í lok þessa mánaðar verði gerð lokatilraun til að ná samkomulagi í deilunni, en þá koma samningsaðilar, Ísland, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið, saman til fundar í Bergen í Noregi.

Steingrímur segir í viðtalinu að hann telji mikilvægt að allir deiluaðilar leggi sig fram um að ná samkomulagi svo að hægt verði koma í veg fyrir ofveiði úr makrílstofninum.

Steingrímur segir að það sé enginn ágreiningur um að heildarveiði á makríl eigi að byggjast á tillögum vísindamanna. Ágreiningur sé hins vegar hvernig eigi að skipta veiðinni milli þjóðanna.

Steingrímur segir að tillaga Noregs og ESB, sem lögð var fram á síðasta fundi á Írlandi, hafi verið algerlega óraunhæf. Tillagan hafi í reynd verið skref aftur á bak. Hann minnir á að á síðustu árum hafi makríllinn verið að færa sig til norðvesturs og veiðist því í miklu magni í íslenskri lögsögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert