Fimm einstaklingar, tengdir Vítisenglum á Íslandi, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna líkamsárásar á konu. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins. Leiðtogi Vítisengla meðal þeirra, sem sitja í gæsluvarðhaldi, en hann var úrskurðaður í vikulangt varðhald í dag samkvæmt heimildum mbl.is.
Að sögn útvarpsins tengist málið árás á konu í heimahúsi í Hafnarfirði fyrir jól. Konan, sem er á þrítugsaldri, var flutt á slysadeild í kjölfarið en hún var meðvitundarlaus þegar að var komið. Karl og kona á fertugsaldri voru handtekin vegna málsins og úrskurðuð í gæsluvarðhald. Önnur árás var hins vegar gerð á konuna og í kjölfar húsleita voru tveir til viðbótar handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Hefur gæsluvarðhaldið verið framlengt. Allt er fólkið í einangrun.
Samkvæmt heimildum mbl.is var Einar Marteinsson, leiðtogi Vítisengla, handtekinn í dag og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sagði útvarpið að lögregla teldi að hann hefði fyrirskipað árásirnar á konuna í hefndarskyni.