Brottfarir Iceland Express frá Keflavíkurflugvelli dragast saman um helming í sumar, frá síðasta sumri. Það er meginástæða þess að flug eykst aðeins um 5% þótt Icelandair bæti við og ný flugfélög, eins og Wowair bætist við.
Kemur þetta fram á vef Túrista.
Niðurstöður athugunar Túrista er að tvær af hverjum þremur brottförum frá Keflavíkurflugvelli í sumar verða á vegum Icelandair, 203 á viku. Iceland Express er annað umsvifamesta fyrirtækið í millilandsflugi því rúmlega tíunda hver vél sem tekur á loft frá Keflavík í júlí er merkt félaginu. Brottfarir félagsins eru 32 en voru 69 á viku í fyrrasumar. Vægi þess hefur því minnkað töluvert frá síðasta sumri þegar það stóð fyrir nærri því fjórðu hverri ferð.
Vægi nýju félaganna Easy Jet, Norwegian og Primera Air er lítið en Wow Air verður þriðji stærsti aðilinn í millilandaflugi með 23 brottfarir á viku.
Tveir nýir áfangastaðir bætast við flóruna á þessu ári, Icelandair bætir Denver í Bandaríkjunum við og Wowair hyggst bjóða ferðir til Lyon í Frakklandi í beinu flugi.