Tillaga að friðlýsingu Skerjafjarðar auglýst

Við Skerjafjörð.
Við Skerjafjörð. mbl.is/Heiðar

Umhverfisstofnun hefur auglýst samþykkt Kópavogsbæjar um friðlýsingu meginhluta Skerjafjarðar, innan bæjarmarka Kópavogs. Áður hafa Garðabær og sveitarfélagið Álftanes friðlýst sinn hluta fjarðarins.

Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs ákvað að friðlýsa hluta Skerjafjarðar sem er innan bæjarmarka Kópavogs með fjörum ásamt grunnsævi. Friðlýst verða tvö svæði, annars vegar í Kópavogi og hins vegar í Fossvogi, alls um 62,6 ha svæði sem mikilvæg búsvæði fugla.

Tillaga bæjarstjórnar Kópavogsbæjar og Umhverfisstofnunar til umhverfisráðherra um mörk og skilmála friðlýsingarinnar er nú auglýst til kynningar.

Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að Skerjafjarðarsvæðið hefur í heild alþjóðlegt verndargildi vegna farfuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar en þar er að finna lífríkar þangfjörur, leirur og grunnsævi sem skapa undirstöðu fyrir afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms og sjávarfitjungs sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi, en marhálmur er ein aðalfæða margæsar. Í Fossvogi og Kópavogi er stór hluti af leirum á Skerjafjarðarsvæðinu.

Fræðslugildi svæðisins er mikið með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott. Strandlengjan er vinsæl til útivistar og í Fossvogi eru iðkaðar siglingar og annað sjósport.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert