MBL sjónvarp er að hefja sýningar á stuttmyndum í samvinnu við Kvikmyndaskóla Íslands. Myndirnar eru lokaverkefni nema úr skólanum og verða sýndar næstu sunnudaga og fer fyrsta myndin í loftið um helgina. Það er myndin Klás eftir Atla Snorrason, sem leikur einnig aðalhlutverkið í henni. Hann útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskólans haustið 2010.
Myndin fjallar um Klás sem ráfar drukkinn inn í íbúðarblokk. Í blokkinni býr átta ára hnáta sem ennþá trúir á jólasveininn og ákveður að bjóða Klás upp á smákökur og mjólk. „Hugmyndin þróaðist fram og til baka. Þetta er lítil jólamynd sem fjallar um ákveðnar hremmingar og hvernig það getur verið einhvers konar vonarneisti í ömurleikanum,“ segir Atli um myndina.
„Ragnar bróðir minn leikstýrði myndinni og við skrifuðum handritið saman. Ég framleiddi hana og lék í henni,“ segir hann.
Hvernig er að vera allt í öllu? „Það er frelsandi en erfitt um leið. Það er gaman að eiga svona stóran þátt í myndinni því þá hefur maður svo mikið að segja,“ segir Ragnar en aðspurður segir hann að uppáhaldsmynd sín um þessar myndir sé The Shawshank Redemption og uppáhaldsleikari Daniel Day Lewis.
„Það er gaman að fá sem flest augu á verkið sitt,“ segir Atli um sýninguna á MBL sjónvarpi.
Hann hefur unnið við fjölmargar stuttmyndir og segist alltaf hafa verið „að dútla sér í þessu“ en hefur mikinn hug á því að starfa við kvikmyndagerð í framtíðinni.