Hálka á vegum víðast hvar

mbl.is/Jónas Erlendsson

Búast má við að það frysti víða á landinu í dag og hálka myndist þá mjög víða.  Aftur hlýnar í fyrramálið og á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni um færð á vegum.

Hálkublettir eru í Þrengslum líkt og nokkuð víða á Suðurlandi en þar er einnig hálka á fáeinum köflum. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víðast vetrarfærð, hálkublettir, hálka eða snjóþekja og verið að hreinsa. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og Ennishálsi.

Nokkur hálka er á Norðurlandi en snjóþekja á Þverárfjalli og að Hofsósi. Flughált er fyrir Melrakkasléttu. Á Austurlandi er sumstaðar hálka eða hálkublettir en flughált á fáeinum sveitavegum. Vegir á Suðausturlandi eru að heita má auðir.

Misjafnir þjónustutímar
Vegfarendur eru beðnir að hafa í huga að víða er ekki mokstur, eða önnur þjónusta á vegum, á kvöldin og nóttunni. Raunar eru sumir vegir ekki í þjónustu nema fáa daga í viku. Upplýsingar um þjónustutíma eru á vef Vegagerðarinnar og í síma 1777.

Hreindýr á Austur- og Suðausturlandi
Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Sjáið staðsetningu hreindýra hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert