Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segist ætla að leggja fram frumvarp fyrir ríkisstjórnina í næstu viku þar sem leikreglur varðandi tollkvóta á innfluttum landbúnaðarafurðum verði skýrðar. Sagðist Steingrímur reikna með því, að aftur yrðu teknir upp magntollar í stað verðtolla.
Sagði Steingrímur að þar yrði tekið á ágreiningsmálum þannig að menn þyrftu ekki að deila um leikreglurnar og m.a. væri tekið tillit til athugasemda umboðsmanns Alþingis. „Vonandi kemst á betri sátt á um framkvæmdina,“ sagði Steingrímur.
Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setti árið 2010 reglugerð um að notast yrði við verðtolla í stað magntolla við útreikning á tollum í tengslum við svonefnda WTO-tollkvóta.
Samtök verslunar og þjónustu töldu þessa ákvörðun ekki standast lög og vísuðu málinu til umboðsmanns Alþingis. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu um mitt síðasta ár, að heimildir sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væru veittar í tollalögum til þess að taka ákvarðanir um álagningu tolla væru ekki í samræmi við kröfur um skattlagningarheimildir sem leiddu af ákvæðum stjórnarskrárinnar.