Ræða um frávísunartillögu

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason. mbl.is/Ómar

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í dag, að þingmenn allra flokka væru að ræða sín á milli hvernig bregðast ætti við þeirri tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að fella niður ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Til stendur að fyrri umræða um þingsályktunartillöguna fari fram á Alþingi á föstudag. Björn Valur sagði aðspurður, að m.a. væri rætt hvort leggja ætti fram dagskrártillögu um að málið yrði tekið af dagskrá. Sagðist hann myndu styðja slíka tillögu.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að koma yrði þessu máli af dagskrá þingsins og ef forseti Alþingis hefði ekki döngun í sér til að gera það yrði að skipta um forseta.

Björn Valur sagði að næsta vika yrði mjög afdrifarík í íslenskum stjórnmálum. „Ég held að í næstu viku muni fara að gerast hlutir, bæði opinberlega og sem fara ekki upp á yfirborðið, sem munu verða aðdragandi að umræðunni á föstudaginn,“ sagði Björn Valur.

Hann sagðist m.a. telja að í vikunni myndu berast upplýsingar um hverjir yrðu kallaðir fyrir sem vitni í dómsmálinu fyrir landsdómi ef málið héldi áfram. „Það verður svo notað sem einhvers konar svipa á menn að gera rétt næstkomandi föstudag. Ég hef trú á að sjálfstæðismenn komi ágætlega nestaðir til þessarar umræðu, til dæmis af hálfu verjanda Geirs Haarde,“ sagði Björn Valur og sagði að málið væri vel undirbúið. „Það mun hafa miklar og vondar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag, fyrir lýðræðið, fyrir þingræðið og ekki síst fyrir dómskerfið ef þingið ætlar að fara að hefja eigin umræður um sakamál í þingsal og inni í þingnefndum,“ sagði hann.

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þessi málflutningur Björns Vals væri dæmalaus og fjarstæðukenndur. Þá sýndu ummæli hans algera vanþekkingu á málinu sjálfu. „Alþingi er ákærandinn og Alþingi breytti um hlutverk þegar það ákvað að ákæra menn í þessu máli. Þá breyttist Alþingi úr því að vera pólitísk samkoma yfir í (hreina) lagalega stofnun,“ sagði Ólöf.

Hún sagði að Alþingi hefði síðan forræði í málinu og það væri Alþingis að meta hvort efni stæðu til að halda því áfram eða ekki. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar,  sagði að þegar til umræðu hefði komið á þingi hvort falla ætti frá máli á hendur níumenningunum svonefndu, sem ákærðir voru fyrir árás á Alþingi, hefði Bjarni Benediktsson sagt að fráleitt væri að Alþingi færi að skipta sér af því dómsmáli. Nú flytti hann þingsályktunartillögu um að Alþingi félli frá ákæru á hendur Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert