Stjórnsýslan þarf að bæta upplýsingagjöf

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að stjórnsýslan ætti enn ýmislegt ólært varðandi upplýsingagjöf til almennings og þurfi að bæta vinnubrögð sín í sambandi við upplýsingagjöf.  

Steingrímur var í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni spurður að því hvers vegna það hefði tekið fjármálaráðuneytið heilt ár að svara fyrirspurn Morgunblaðsins um kostnað vegna Icesave-samninganefndarinnar svonefnda. Steingrímur sagði, að deila hefði m.a. staðið um það hvernig túlka ætti tiltekna hluti gagnvart upplýsingalögum.

Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi þáttarins, spurði þá Steingrím hvort stjórnvöld gætu ekki gengið lengra við að birta upplýsingar en ströngustu ákvæði upplýsingalaga kvæðu á um. Steingrímur sagði, að almennt væri verið að vinna í anda þess að veita meiri upplýsingar.

„En það er líka mikil vinna. Oft á tíðum fá menn mjög flóknar fyrirspurnir sem kosta heilmikla vinnu," sagði Steingrímur.

„En þessi var ekki þannig," sagði Sigurjón þá og vísaði til fyrirspurnar Morgunblaðsins. „Þetta er einn bókhaldslykill."

Steingrímur sagði þá að fyrir lægju úrskurðir um, að ríkisbókhaldið sé ekki upplýsingaskylt þannig að hægt sé að fara beint inn í það og sækja þangað upplýsingar. Og stundum lægju upplýsingar inni í ríkisbókhaldi og það kostaði vinnu að taka þær saman á miðju ári.

„Eftir sem áður er í vaxandi mæli verið að fara beint inn í ríkisbókhaldið og sækja upplýsingar og matreiða þær ofan í fjölmiðla eða gagnvart Alþingi. En ég held að það sé alveg rétt að stjórnsýslan á ennþá töluvert ólært og þarf að bæta vinnubrögð sín í sambandi við upplýsingagjöf," sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert