Stofnanir deila um salt

Salti mokað.
Salti mokað.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir í tilkynningu, sem birt er með listum yfir notendur iðnaðarsalts, ekki rétt eins og komið hafi fram í fréttum að eftirlitið hafi hafnað því að birta listana. Þá vill það ítreka að það sé ekki sammála þeim stjórnsýsluákvörðunum sem Matvælastofnun (MAST) tók í kjölfar þess að það uppgötvaðist að Ölgerðin væri að dreifa iðnaðarsalti til manneldis.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir, að eftir að stofnunin fékk upplýsingar um málið hafi hún hafið rannsókn á því hverjir hefðu saltið undir höndum. Jafnframt hefði eftirlitið verið ósammála þeirri ákvörðun MAST að heimila Ölgerðinni að selja matvælafyrirtækjum saltbirgðir sínar. Starfsleyfi Ölgerðarinnar væri ekki á hendi MAST heldur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Við rannsókn hefði komið í ljós að engar saltbirgðir væru hjá matvælaframleiðendum og einungis stærstu kaupendur saltsins vissu af málinu.

Kaupendur yrðu upplýstir

„Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fór fram á að öllum kaupendum yrðu sendar upplýsingar þar sem fram kæmi að um væri að ræða að iðnaðarsalt en ekki salt sem ætlað er í matvælaframleiðslu.  Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur einnig óskað eftir upplýsingum um geymslu og framleiðslu saltsins. Ölgerðin upplýsti að hún hefði hafið dreifingu manneldissalts þegar í nóvember,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.

Matvælastofnun sagði á vef sínum í gær, að hún hefði lagt til við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að hlutast yrði til um að Ölgerðin kæmi með almennar upplýsingar um málið þannig að það yrði gert opinbert. Þessu hefði Ölgerðin hafnað. 

„Stofnunin harmar hins vegar að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skuli í framhaldi af þessu koma með harða gagnrýni á störf Matvælastofnunar í fjölmiðlum og þá sérstaklega í ljósi þess að engin athugasemd hefur verið gerð við sölu vörunnar til margra ára frá dreifingarfyrirtæki sem er undir þeirra eftirliti, fyrr en Matvælastofnun tók málið upp," segir á vef Matvælastofnunar.

Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Vefur Matvælastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert