Unnið að nýjum vopnalögum

Lögreglan leggur reglulega hald á ólögleg vopnasöfn.
Lögreglan leggur reglulega hald á ólögleg vopnasöfn.

Drög að frumvarpi að nýjum lögum um vopn, sprengiefni og skotelda er nú til umsagnar í innanríkisráðuneytinu. Verði það að lögum kemur það í stað vopnalaga nr. 16/1998. Segir í tilkynningu um þetta á vef ráðuneytisins að reynslan af gildandi lögum hafi ekki verið að öllu leyti góð en af þeim hafi hlotist nokkur óvissa og ágreiningur. 

Í frumvarpinu eru lögreglu fengnar auknar heimildir til að leggja hald á skotvopn, sprengiefni og flugelda sem og að afturkalla leyfi. Sjálfvirk og hálfsjálfvirk skotvopn, að undanskildum hálfsjálfvirkum eða handhlöðnum fjölskota haglabyssum með skothylkjahólfum fyrir aðeins tvö skothylki, verða með öllu bönnuð.

Að auki verður nú gert skilyrði um að þeir sem fá eigi skotvopnaleyfi þurfi að vera reglusamir, en það hefur ekki verið inni í lögum áður. Hámarksfjöldi skotvopna í eigu einstaklings verða 20 vopn. Ákvæði um sprengiefni er nokkuð breytt og aukið. Lögreglustjóra verður skylt, en ekki bara heimilt, að afturkalla leyfi samkvæmt lögunum ef nauðsynleg skilyrði eru ekki uppfyllt en lögreglustjórum ber að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli leyfisskilyrði. Þá er lögreglustjóra heimilt til bráðabirgða að afturkalla leyfi án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til og leggja jafnframt hald á vopn, efni og tæki.

Einnig mælir frumvarpið fyrir um þá breytingu að refsimörk fyrir stórfelld brot verði hækkuð í átta ára fangelsi, en einstaklingar geti skilað inn leyfislausum og bönnuðum hlutum sér að refsilausu.

Frétt innanríkisráðuneytisins

Frumvarpsdrögin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert