„Okkur var selt þetta salt sem matvælasalt, eins og væntanlega öllum þessum fyrirtækjum sem um ræðir,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri SS, sem er eitt þeirra matvælafyrirtækja sem notuðu iðnaðarsalt frá Ölgerðinni í framleiðslu sína.
„Okkar mistök eru þau að taka orð seljanda trúanleg í stað þess að krefjast vottorða frá framleiðanda.“
Steinþór segir það hafa komið SS verulega á óvart þegar upp komst um notkun og sölu iðnaðarsaltsins til matvælaframleiðslu. „Já, að sjálfsögðu. Þetta er aðili sem er þekktur erlendis sem saltframleiðandi. Auðvitað liggur fyrir hjá Matvælastofnun að engin hætta hafi verið á ferðum, en hins vegar er framleiðsluferlið ekki vottað með sama hætti og er með það sem sérstaklega er ætlað til matvælaframleiðslu.“
Steinþór segir erfitt að segja til um hvaða áhrif þetta mál muni hafa á rekstur SS og annarra fyrirtækja sem notuðu iðnaðarsaltið til matvælaframleiðslu. „Öll umræða af þessu tagi er til þess fallin að skapa tortryggni og ótta hjá neytendum. Okkur er mjög umhugað um að fólk geti treyst okkar vörum í hvívetna.“
Frá því í apríl 2011 hefur SS eingöngu notað vottað matvælasalt til matvælaframleiðslu, en fyrir þann tíma var keypt salt af Ölgerðinni sem SS var selt til matvælaframleiðslu. Vegna þeirra mistaka hefur SS breytt verklagi sínu og krefst nú staðfestingar frá framleiðendum á að viðkomandi rekstrarvörur séu hæfar til matvælaframleiðslu.
„Þetta eru svokölluð data-blöð sem fylgja þeim vörum sem eru seldar. Þar eru gefnir upp þeir eiginleikar sem máli skipta fyrir viðkomandi vöru. Við kaupum mikið inn sjálf og erum þá með þessar upplýsingar fyrir þær vörur. En í sumum tilvikum er keypt af innlendum heildsölum eða innflytjendum.“
Steinþór segist vona að nýtt vinnulag fyrirbyggi að slíkt endurtaki sig og segir að vottorða verði krafist frá framleiðendum, en ekki endurseljendum. „Við þurfum að fá þau frá upprunalegum framleiðendum, en ekki að taka orð seljanda gild. Auðvitað er slæmt að geta ekki tekið orð seljanda gild. En við verðum að bera ábyrgð á okkar. Þetta er lexía fyrir alla. Við sjáum að þetta hefur verið stórt, séð yfir allan markaðinn, og gengið í langan tíma. Þannig að menn hafa verið í góðri en því miður ekki réttri trú.“
Steinþór segir að SS muni fara yfir málið með Ölgerðinni.