„Óvissan í þessu máli er mun meiri en maður hafði áttað sig á,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, spurð um fund nefndarinnar í morgun þar sem fulltrúar AFS Ráðgjafar, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Pálmi Kristinsson verkfræðingur gerðu grein fyrir skýrslum sem þeir hafa unnið um Vaðlaheiðargöng.
Ólína vísar þar til óvissu meðal annars varðandi lánsmöguleika ríkisins vegna framkvæmdarinnar, vaxtakjör sem kunni að bjóðast í þeim efnum og hættu á greiðslufalli.
„Þannig að ég verð bara að segja alveg eins og er að mér er órótt yfir þessum upplýsingum og ég sé fulla ástæðu til þess að nú verði gert raunverulegt arðsemismat á þessari framkvæmd. Það hefur ekki verið gert mér vitanlega. Mér sýnist það bara blasa við að við þurfum að fá óháðan aðila til þess að gera slíkt mat og fara vel yfir allar grunnforsendur málsins. Það er ekki hægt að afgreiða það eins og sakir standa sýnist mér,“ segir Ólína.