„Hljótum að þurfa að endurmeta stöðuna“

Frá fundi umhverfis- og samgöngunefnd þar sem Vaðlaheiðargöng eru rædd.
Frá fundi umhverfis- og samgöngunefnd þar sem Vaðlaheiðargöng eru rædd. mbl.is/Sigurgeir

„Ef það er svona mikil óvissa og áhætta í þessu verkefni hlýtur sú spurning að vakna hvort það eigi ekki heima inni í samgönguáætlun og sé þá metið samkvæmt þeim mælistikum á jöfnum grundvelli og önnur samgöngumál í landinu,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Nefndin fundaði í morgun með fulltrúum IFS Ráðgjafar, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Pálma Kristinssyni verkfræðingi, eins og fjallað hefur verið um á mbl.is, en þessir aðilar hafa allir unnið skýrslur um Vaðlaheiðargöng.

Guðfríður segir aðspurð að hún telji að fundurinn hafi aukið á efasemdir nefndarmanna um framkvæmdina en það sem einkum kom fram á fundinum var að mikil óvissa væri um arðsemi hennar og fjármögnun og áhættu því fylgjandi.

Guðfríður ítrekar þó að enginn sé þar með að segja að Vaðlaheiðargöng eigi ekki einhvern tímann rétt á sér. „Það er hins vegar svo að Vaðlaheiðargöng hafa ekki verið efst á forgangslista yfir þær vegaúrbætur sem verður að fara í og eru brýnastar og þá má það auðvitað ekki gerast að þetta verkefni sé tekið út af samgönguáætlun á einhverjum tilteknum forsendum en muni í raun soga til sín fjármagn úr sjóðum almennings sem kemur niður á mun brýnni verkefnum. Um það snýst auðvitað málið,“ segir Guðfríður.

Hún bendir á að ástæða þess að Vaðlaheiðargöng hafi verið tekin út úr samgönguáætlun hafi verið sú að setja hefði átt þau í einkaframkvæmd og gera þar með eðlilega arðsemiskröfu til þeirra. Sú forsenda virtist hins vegar ekki lengur fyrir hendi. „Ef sú forsenda er ekki lengur fyrir hendi hljótum við að þurfa að endurmeta stöðuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert