Meirihlutinn er ekki að falla

Guðríður Arnardóttir.
Guðríður Arnardóttir.

„Við ætlum ekki að tjá okkur um þetta að svo stöddu,“ segir Guðríður Arnardóttir, oddviti meirihlutans í Kópavogi, um uppsögn bæjarstjórans Guðrúnar Pálsdóttur. „Það eru ennþá lausir endar og við tjáum okkur ekki fyrr en búið er að hnýta alla hnúta. En þetta var sameiginleg niðurstaða allra í meirihlutanum.“

Að sögn Guðríðar var ákvörðunin tekin á fimmtudaginn og hún vill ekki skýra frá því hvort næsti bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum eða hvort hann muni koma úr röðum meirihlutans. „Það hefur verið skoðun okkar í Samfylkingunni og í Vinstri-grænum að pólitískur bæjarstjóri sé betri kostur en ópólitískur af ýmsum ástæðum. Sé bæjarstjóri pólitískur þá er ekkert óeðlilegt við það að forystumaður stærsta flokksins taki að sér það verkefni. Það er ég. En við gerum enga ófrávíkjanlega kröfu um pólitískan bæjarstjóra. Okkur finnst skipta mestu máli að þessi meirihluti starfi saman í óbreyttri mynd út kjörtímabilið. Einungis þannig getum við komið okkar stefnumálum til framkvæmda.“

En er meirihlutinn að falla? „Nei. Alls ekki. Bæjarstjóraskipti hafa engin áhrif á samstarf meirihlutans. Okkar samstarf hefur gengið vel og ég geri ráð fyrir að svo verði áfram. Við munum komast að samkomulagi í þessu máli eins og öllum öðrum.“

Ekkert pólitískt ráðabrugg

Eiga Kópavogsbúar ekki rétt á að fá að vita hvað gerðist og hvað tekur nú við? „Jú. En svona mál þarf ákveðinn tíma í vinnslu og það er óheppilegt að það hafi ratað í fjölmiðla áður en það var búið að klára málið. Við erum að reyna að flýta þessu eins og kostur er og eyða þessari óvissu sem fyrst,“ segir Guðríður, en meirihlutinn fundar í dag.

Guðríður hafnar því að uppsögn bæjarstjóra sé hluti af pólitísku ráðabruggi sem sé til þess fallið að koma Samfylkingunni í bæjarstjórastólinn. „Það er alveg ljóst að ef þetta hefði snúist um mig eða bæjarstjórastólinn og valdagræðgi mína, þá hefðum við afgreitt mál með öðrum hætti vorið 2010. Ef þetta hefði skipt Samfylkinguna mestu máli, þá hefðum við örugglega fundið einhverja leið til að gera mig að bæjarstjóra. Það sem skiptir okkur mestu máli eru þau málefni sem þessi meirihluti ætlar að vinna að í sameiningu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert