Reynir að flýta millidómstigi

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði á Alþingi í dag að hann myndi reyna að gera allt sem hann geti til að flýta því að hér á landi verði sett á fót millidómstig, og málið sé í markvissum og ágætum farvegi. Hann svaraði því þó ekki til hvort frumvarp um dómstigið yrði lagt fram á vorþingi.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði ráðherrann út í málið og afstöðu hans til millidómstigs. Ögmundur sagðist vera millidómstigi meðmæltur og mikilvægt væri að samstaða væri um málið. Hins vegar væri einnig mikilvægt að skoða alla kosti og galla og ekki megi gleyma því að verið sé að tala um umfangsmikla fjármuni.

Ögmundur lýsti því yfir í október sl. á málþingi um framtíðarskipan dómstóla að hann væri fylgjandi því að komið yrði á millidómstigi. Það yrði þó að gaumgæfa og myndi ráðast af fjárhagsstöðu því ljóst væri að því fylgdi aukinn kostnaður.

Þá vísaði Ögmundur í skýrslu vinnuhóps sem hann skipaði og skilað var í júní síðastliðnum. Vinnuhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að ráðast ætti í stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum hér á landi. Þó voru skiptar skoðanir á því innan hópsins hvort millidómstig ætti í fyrstu að taka aðeins til sakamála eða bæði sakamála og einkamála.

Millidómstig hefur alloft komið upp á undanförnum árum og áratugum. Á málþingi lagadeildar Háskólans í Reykjavík í febrúar síðastliðnum kom meðal annars fram að réttarfarsnefnd samdi mikið frumvarp til lögréttulaga á áttunda áratugnum, en markmiðið með því var að hraða málsmeðferð og aðskilja dómsvald og framkvæmdarvald. 

Mikil vinna var lögð í frumvarpið sem fjórum sinnum var lagt fyrir Alþingi, síðast 1980, en aldrei afgreitt. Ástæðan var andstaða sýslumanna en á þessum tíma rannsökuðu þeir mál og dæmdu.

Þá gerðist það árið 2008, þegar nefnd um milliliðalausa sönnunarfærslu skilaði tillögu sinni til ráðherra dómsmála, en hún lagði til að millidómstig yrði tekið upp, að málið var komið ansi langt á leið, og nánast var farið að leita eftir húsnæði fyrir dómstólinn. En þá hrundi efnahagurinn og málið lagðist af.

Ljóst er af svari ráðherrans á Alþingi í dag að enn verður bið á því að frumvarp um millidómstig líti dagsins ljós. Hann minntist meðal annars á það, að á vinnufundi í ráðuneytinu í morgun hafi það verið rætt að setja á fót starfshóp til að fara yfir þær leiðir sem eru nefndar í skýrslu vinnuhópsins sem var skilað um mitt ár í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert