Starfshópur um „myrkravernd“

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Kristinn Ingvarsson

Umhverfisráðherra ætlar að skoða möguleika þess að setja á fót starfshóp um „myrkravernd“. Kom þetta fram í svari Svandísar Svavarsdóttur við fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um ljósmengun. Þingmenn voru sammála um að myrkrið væri auðlind sem bæri að varðveita. 

Eins og fram kom á mbl.is fyrir helgi er þetta í þriðja skiptið sem Mörður ber upp fyrirspurn um ljósmengun til umhverfisráðherra á Alþingi, en fyrri fyrirspurnir bar hann upp árið 2004 og 2006. Í bæði skiptin tvö voru það aðeins ráðherra og Mörður sem ræddu málin en í dag blönduðu fleiri þingmenn sér í umræðuna sem var töluvert jákvæðari en áður.

Meðal þess sem fram kom í máli Marðar var að hann hefði nýverið lært að íslenska myrkrið væri óvenju gott, en myrkur væri ekki það sama og myrkur. Um væri að ræða hluta af náttúruauðlindum Íslands sem bæri að varðveita sem best. Hann hvatti til að „svolítill“ hópur yrði skipaður til að skoða þessi mál og athuga hvernig málum er háttað í nágrannalöndunum.

Kyndilberi í baráttunni

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði Mörð vera ötulasta kyndilbera í baráttunni fyrir varðveislu næturhiminsins. Hún sagði ekki sérstakar áætlanir innan ráðuneytisins um að ráðast í úttekt á ljósmengun hér á landi, engin löggjöf væri til sem takmarkaði slíka mengun og festa þyrfti í lög ákvæði þar um ef stjórnvöld hygðust ætla að takmarka ljósmengun.

Engu að síður tókst Svandísi að gleðja Mörð aðeins en hún tilkynnti að í drögum að byggingareglugerð verði bæði skilgreining og ákvæði um ljósmengun. Þegar kemur að nýframkvæmdum þarf því að taka tillit til ljósmengunar.

Í sínu seinna svari sagði Svandís svo að þarna væri um að ræða sérstakan anga náttúruverndar sem kalla mætti myrkravernd. Þá sagðist hún taka hugmynd Marðar um „svolítinn“ hóp vel og muni skoða það á næstu dögum hvort ekki sé hægt að skipa starfshóp um málið.

Meðal þeirra þingmanna sem tóku einnig til máls var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hún þakkaði Merði fyrir að halda þessu máli á lofti og sagði það alls ekki sjálfgefið að fá þess notið að sjá norðurljósin og stjörnurnar. Um leið og íbúar landsins átti sig á því átti þeir sig um leið á að myrkrið sé auðlind.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sem einnig sagði mikilvægt að huga að þessu málefni og fagnaði því að ljósmengunar væri getið í byggingarreglugerð.

Mörður Árnason
Mörður Árnason Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert