Tankbíll með eftirvagn fór út af veginum í Hestfirði á Vestfjörðum nú á tíunda tímanum í kvöld. Ökumaðurinn er sagður hafa sloppið án meiðsla en talið er að olía hafi lekið úr bílnum. Tækjabíll frá slökkviliðinu á Ísafirði er nú á leiðinni á vettvang.
Eftirvagninn valt á hliðina og bifreiðin hafnaði ofan á honum samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Lögregla og slökkvilið er enn á vettvangi. Talið er að á bilinu 30-40 þúsund lítrar af eldsneyti sé í bílnum.
Aðstæður eru erfiðar á vettvangi; flughált, rigning og myrkur. Tilkynning barst kl. 21:12.