Ekki eru settar takmarkanir á virði þeirri búslóða sem fluttar eru á milli landa fyrir starfsmenn utanríkisráðuneytisins, þó settar séu skorður við umfangi þeirra. Ákveðið hefur verið að fara yfir þær verklagsreglur er gilda um búslóðaflutninga og tryggingar þeirra vegna starfsmanna á vegum ráðuneytisins. Þetta var meðal þess sem kom fram í svari utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, á Alþingi í dag við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks um greiðsluskyldu skaðabóta sem sett var fram í átta liðum.
Fulltrúar fyrirtækisins sem fengið var til að vinna mat á tjóni sem sendiráðunautur í sendiráði Íslands varð fyrir fóru ekki til Bandaríkjanna vegna málsins. Í svarinu var m.a. greint frá því að matið hefði byggst á eftirfarandi gögnum:
„1. Kröfugerð tjónþola, dags. 23. maí 2001. Í kröfunni er gerð nákvæm grein fyrir öllum þeim verðmætum sem í gáminum voru og tjónþoli telur hafa skemmst.
2. Pökkunarlisti frá Pökkun og flutningum hf. sem annaðist pökkun búslóðarinnar.
3. Ljósmyndir tjónþola af búslóðinni, teknar áður en henni var pakkað.
4. Ljósmyndir af vettvangi þegar gámurinn var opnaður.
5. Skýrsla Amrestore, dags. 17. maí, 2001. Í skýrslunni er gerð grein fyrir öllum listaverkum sem í gáminum voru ásamt lýsingu á tjóni á hverjum hlut.
6. Skoðunarvottorð frá Norfolk Maritime Surveyors, Inc. Tryggingafélag sem Tryggingamiðstöðin kvaddi á vettvang sem sinn fulltrúa þegar gámurinn var opnaður. “
Um mánuður er síðan greint var frá því að íslenska ríkið hefði greitt Skafta Jónssyni, sendiráðunaut sendiráðs Íslands í Washington, og konu hans, Kristínu Þorsteinsdóttur, 75 milljónir í bætur vegna tjóns sem þau urðu fyrir í apríl á þessu ári þegar sjór komst inn í gám sem búslóð þeirra var flutt í til Bandaríkjanna. Stærstur hluti bótanna var greiddur vegna fjölmargra listaverka og annarra listmuna sem voru í búslóðinni eða á fimmta tug milljóna en annað sem mun meðal annars hafa verið bætt var fatnaður, húsgögn og skartgripir.