Aðilar hafa rætt saman

Ármann Kr. Ólafsson oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs. mbl.is/Brynjar Gauti

„Nú hefst bara vinna við að mynda nýjan meirihluta,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs, um fall meirihlutans í bæjarstjórn. „Aðilar hafa auðvitað verið að ræða saman í þeirri stöðu sem upp er komin,“ segir hann aðspurður.

Haldinn var aukafundur í bæjarstjórninni síðdegis í dag að ósk sjálfstæðismanna, sem fóru fram á skýringar á uppsögn Guðrúnar Pálsdóttur bæjarstjóra. „Við fengum óljós munnleg svör en erum að bíða eftir skriflegum svörum næsta fimmtudag,“ segir Ármann.

„Það er ljóst að meirihlutinn stóð ekki heilshugar á bak við uppsögn bæjarstjórans eins og mann hafði grunað,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig grunað að meirihlutinn myndi springa. ,,Það var ekki hægt að gera grein fyrir því af hverju henni var sagt upp og hvers vegna var farið í þessa vegferð. Þetta var allt málum blandið,“ segir Ármann.

Meirihlutinn er nú fallinn eftir að Hjálmar Hjálmarsson fulltrúi Næst besta flokksins, hefur slitið samstarfinu. „Nú hefst bara vinna við að mynda nýjan meirihluta,“ segir Ármann. Spurður hvort viðræður hafi þegar farið fram segir hann að aðilar hafi rætt saman í þeirri stöðu sem upp er komin.

Ellefu fulltrúar sitja í bæjarstjórn Kópavogs. Samfylking, Vinstrihreyfingin-grænt framboð, Næst besti flokkurinn og Listi Kópavogsbúa mynduðu meirihluta sex bæjarfulltrúa eftir seinustu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn er með fjóra fulltrúa í bæjarstjórn, Samfylkingin þrjá, Framsóknarflokkurinn einn, VG einn, Næst besti flokkurinn einn og Listi Kópavogsbúa einn fulltrúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert