Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, og Michael Moore, einn þekktasti vinstrimaður Bandaríkjanna, verða meðal þátttakenda í pallborðsumræðum um baráttu almennings gegn fjármálaöflunum á morgun, miðvikudag.
Auk þeirra Birgittu og Moore taka þau Chris Hedges, Margaret Flowers, Kevin Zeese og Tangerine Bolen þátt í umræðunum.
Moore er einn vinsælasti heimildarmyndagerðarmaður heims og má nefna að mynd hans Fahrenheit 911 sló aðsóknarmet og hlaut Gullpálmann í Cannes á sínum tíma.
Þá seldist bók Moores um forsetatíð George W. Bush, Stupid White Men, eins og heitar lummur á sínum tíma og kom meðal annars út í íslenskri þýðingu.
Hægt verður að fylgjast með umræðunum hér en þær hefjast klukkan fimm síðdegis að staðartíma á austurströnd Bandaríkjanna á morgun, miðvikudaginn 18. janúar, eða klukkan 22.00 annað kvöld að íslenskum tíma.