„Þetta er auðvitað búið að krauma undir lengi og þá ekki síst vegna Evrópusambandsumsóknarinnar sem er búin að kljúfa flokkinn í herðar niður,“ segir Gísli Árnason, formaður Svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Skagafirði.
Svæðisfélög VG í Húnaþingi og Skagafirði sendu frá sér ályktun fyrr í dag þar sem því er beint til Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, að hann íhugi stöðu sína á formannsstóli í ljósi stefnu og framgöngu forystu flokksins sem sé að hrekja fjölmarga kjósendur frá honum.
„Það er sama eiginlega hvað stofnanir innan flokksins ákveða, það er ekkert gert með það. Og þessi stefna sem fólk fylgdi í kosningunum síðustu, það stendur ekki steinn yfir steini af henni,“ segir Gísli. Það sé fyrst og fremst það sem fólk sé reitt yfir.
Gísli segir að hljóðið í sé fólki búið að vera mjög þungt vegna þessa. „Og ekki bara flokksbundnu fólki heldur bara almennum kjósendum sem báru væntingar til þessa stjórnarsamstarfs á sínum tíma. Það er ekkert eftir af því.“