„Gunguskapur stjórnarflokkanna“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir Eyþór Árnason

„Ef þetta fólk ætlar núna að reyna að ganga á bak orða sinna ... þá er það bara enn eitt dæmið fyrir okkur og kjósendur í þessu landi að það er ekki hægt að treysta nokkrum sköpuðum hlut sem þetta fólk segir,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um mögulega frávísun á þeirri tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins að vísa beri frá málinu á hendur Geir H. Haarde.

Sem kunnugt er hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagt fram tillögu um að draga beri ákæruna á hendur Geir til baka.

Samkomulag allra flokka

Ragnheiður víkur að meðferð Alþingis á tillögu Bjarna fyrir jólafrí.

„Þessi tillaga kom fram fyrir jól og það var samkomulag allra flokka, ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að þessi umræða færi fram. Hún var dagsett fyrir jól þennan dag [þ.e. nk. föstudag]. Það er því enn eitt dæmið um vanefndir af hálfu stjórnarflokkanna ef þeir ætla að reyna með einhverjum hætti að koma í veg fyrir að Alþingi ræði málið eins og þeir voru búnir að samþykkja að gera. Það eru vanefndir af þeirra hálfu.

Þetta er í mínum huga gunguskapur... Þetta var samkomulag milli forystumanna ríkisstjórnarinnar, okkar og þingflokksformanna allra flokka, þar á meðal núverandi fjármálaráðherra, sem var þá þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Ef þetta fólk ætlar núna að reyna að ganga á bak orða sinna með því að koma með frávísunartillögu, dagskrárgerðarbreytingu eða eitthvað slíkt að þá er það bara enn eitt dæmið fyrir okkur og kjósendur í þessu landi að það er ekki hægt að treysta nokkrum sköpuðum hlut sem þetta fólk segir,“ segir Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert