Taka á ákvörðun á formannafundi í Starfsgreinasambandinu á morgun um hvort kjarasamningum verður sagt upp. Harðyrtar yfirlýsingar hafa borist af félagsfundum aðildarfélaga og hefur samninganefnd verkalýðsfélagsins Bárunnar samþykkt í atkvæðagreiðslu að segja beri samningum upp.
Á félagsfundi Drífanda í Vestmannaeyjum í kvöld var samþykkt ályktun þar sem segir að enn einu sinni sé íslenskt launafólk svikið af ríkisstjórn er kenni sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti og lýsti fundurinn yfir algjöru vantrausti á ríkisstjórnina.
„Svikaslóðin er löng og síðustu afrekin eru að standa ekki að fullu við hækkun bóta atvinnuleysis-, elli- og örorkulífeyrisþega. Fyrirhuguð skattlagning almennra lífeyrissjóða umfram opinbera lífeyrissjóði er ávísun á ójöfnuð til framtíðar. Hækkun skatta og opinberra gjalda á vörur og þjónustu sem bundin er vísitölu er aðför að heimilum þar sem það hækkar húsnæðislán almennings um milljarða króna,“ segir í ályktuninni.
Þá segir að ráðherra hafi lýst því yfir 16. janúar að hann „ætli að hamast eins og hann getur" við að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Félagsfundurinn minnir ráðherra á að kapp er best með forsjá og spyr hvernig hann ætli að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks á sama tíma og verið er að grafa undan undirstöðum sjávarútvegsfyrirtækja í Eyjum?
Forsendur samninga eru margbrostnar og hvetur fundurinn ríkisstjórnina til að „hamast eins og þau geta" til hagsbóta fyrir verkafólk og launþega, í stað þess að grafa undan atvinnuöryggi þeirra og hygla fjármagnseigendum og pólitískum markmiðum,“ segir í ályktun Drífanda í Eyjum.
Einnig var fjallað um endurskoðun kjarasamninga og efndir loforða stjórnvalda á fjölmennum félagsfundi í Framsýn á Húsavík í kvöld. Í frétt á vefsíðu Framsýnar segir að fundarmenn hafi talið ljóst að samningsforsendur væru brostnar, „sérstaklega er varðaði yfirlýsingar stjórnvalda með kjarasamningunum. Skilaboð fundarmanna voru skýr og var formanni Framsýnar falið að koma þeim á framfæri við formannafund SGS á morgun. Hann og varaformaður félagsins verða fulltrúar félagsins á formannafundunum,“ segir í fréttinni.
Fyrr í kvöld barst ályktun frá stéttarfélaginu Afli á Austurlandi um að segja bæri upp samningum þar sem forsendur þeirra væru brostnar.
Alls afhentu 13 aðildarfélög Starfsgreinasambandinu kjarasamningsumboð í síðustu samningum og munu formenn þeirra flytja skilaboð og niðurstöður félagsmanna sinna inn á formannafund SGS á morgun þar sem greiða á atkvæði um hvort samningum skuli sagt upp.