Þingnefndarmenn kallaðir fyrir landsdóm

Andri Árnason og Geir H. Haarde en Andri er verjandi …
Andri Árnason og Geir H. Haarde en Andri er verjandi Geirs fyrir landsdómi. mbl.is/Rax

Meirihlutinn í níu manna þingnefnd, sem kjörin var til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið, verður á meðal þeirra vitna sem Andri Árnason hrl. og verjandi Geirs H. Haarde mun kalla fyrir landsdóm.

„Ég vil ekki tjá mig endanlega um vitnalistann, en reikna með að hann verði birtur þegar nær dregur dómsmeðferðinni og boðanir hefjast,“ segir Andri í samtali við mbl.is.

Tengjast upplýsingum um efnahag bankanna

„Það má hins vegar staðfesta að á listanum eru m.a. aðilar sem tengjast upplýsingum um efnahag bankanna enda ganga tveir ákæruliðir nú út á að Geir hafi átt að hafa áhrif á sölu eigna bankanna á árinu 2008, sem við teljum hafi verið algjörlega óraunhæft á þeim tíma. Síðan er miðað við að þingmenn sem sátu í þingnefndinni og sem lögðu til ákæru, þ.e. þingmenn úr Atla-nefndinni, komi fyrir dóm og geri grein fyrir rannsókn sinni. Mikilvægt er að fara nákvæmlega yfir rannsóknargögnin með viðkomandi þingmönnum, enda önnuðust þeir rannsóknina á meintri ráðherraábyrgð á vegum þingsins.“

Grafalvarlegt að leggja til að menn séu ákærðir

Þá er einnig gert ráð fyrir að nefndarmenn í rannsóknarnefnd Alþingis komi fyrir dóm og geri grein fyrir sínum rannsóknum og niðurstöðum. „Vörnin mun að einhverju leyti miðast við að ekki sé samræmi milli rannsóknargagna sem nú liggja fyrir og niðurstaðna þessara aðila um ábyrgð ákærða,“ segir Andri.

Andri segir mikilvægt að menn átti sig á því að það sé grafalvarlegur hlutur að leggja til að menn séu ákærðir og það verði ekki gert nema að ígrunduðu máli.

„Stefán Már Stefánsson lagaprófessor skrifaði grein í blaðið hjá ykkur í dag, þar sem hann bendir á að ekki séu forsendur í málsskjölunum fyrir þeirri aðgreiningu sem Alþingi greip til þegar ákveðið var hver yrði ákærður. Og Stefán Már bendir á að þingmenn þurfi að byggja ákvörðun sína á raunverulegum sakargiftum á lagalegum grundvelli.“

Andri segir að þingmenn hafi hinsvegar ekki getað metið málið fyllilega, þar sem þeir hafi aðeins haft hluta af gögnum málsins. „Í raun voru þeir aðeins með rannsóknarskýrsluna og örfá önnur skjöl, en aldrei gögnin sjálf. Síðan þegar búið var að ákæra fór saksóknari að kalla eftir gögnum og þá kom ýmislegt í ljós, sem ekki var í samræmi við ályktanir þingnefndarinnar að okkar mati.“

Aðspurður hvort fleiri þingmenn verði kallaðir til sem vitni svarar Andri: „Nei, við höfum haldið okkur við þá þingmenn sem lögðu þetta til. Aðrir komu ekki að rannsókninni með beinum hætti, þó að það hafi verið þeirra að ákveða hvort þeir greiddu atkvæði eða ekki, og það hafi skilað þeirri niðurstöðu að farið var út í breytingar á tillögu þingnefndarinnar án þess að neinar forsendur væru til þess.“

Andri skilaði greinargerð og vitnalista til landsdóms 9. janúar síðastliðinn. Saksóknari er einnig með vitnalista og verða allt í allt fimmtíu manns kallaðir fyrir landsdóm, þar á meðal samráðherrar Geirs og starfsmenn fjármálafyrirtækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert