Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag að breytingar á ríkisstjórninni hefðu engin áhrif á umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið enda vissi hann ekki betur en að hann og forveri hans á ráðherrastóli, Jón Bjarnason, hefðu nákvæmlega sömu grunnafstöðu til málsins.
Ráðherrann var að bregðast við fyrirspurn frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem spurði hvort breyting yrði á því hvernig haldið yrði á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum með nýjum ráðherra.
Bjarni spurði ennfremur hvort Steingrímur gæti borið ábyrgð á niðurstöðu viðræðna við ESB um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál en eftir sem áður tekið afstöðu gegn inngöngu í sambandið.
Steingrímur sagðist telja að þegar niðurstaða í viðræðum við ESB lægi fyrir gerði hann ráð fyrir að horft yrði til heildarmats á þeirri niðurstöðu en ekki einstakra málaflokka þótt hann teldi að sjávarútvegsmálin myndu þar vega þungt.
Þá sagðist Steingrímur einstökum samningsköflum í viðræðunum yrði ekki lokað nema um væri að ræða ásættanlegan frágang á þeim. Hann lagði áherslu á að ekki væri búið að móta samningsafstöðu Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.