„Ég ... vinn núna að því að stofna nýjan flokk. Við munum kynna grundvallarstefnu flokksins í febrúar og gera fólki kleift að ganga til liðs við hann,“ segir Lilja Mósesdóttir þingmaður og býður Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur velkomin til samstarfs.
Spurð út í hörð viðbrögð Árna Þórs Sigurðssonar, þingflokksformanns VG, við grein Ögmundar í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag, túlkar Lilja hræringarnar svo:
„Forysta VG er núna farin að beina óvild sinni að Guðfríðu Lilju og Ögmundi með það að markmiði að koma þeim út úr flokknum. Brotthvarf okkar Atla og Ásmundar Einars virðist ekki hafa orðið til þess að lægja öldurnar innan þingflokksins. Reynsla mín af forystu VG er að hún þolir ekki sjálfstæða þingmenn, þar sem þeir ógna foringjaræðinu í flokknum.“
„Munu hamast“ á Ögmundi og Guðfríði Lilju
- Hvað mun gerast hjá VG ef tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að vísa beri frá ákærunni á hendur Geir H. Haarde verður samþykkt?
„Forysta VG mun hamast enn meira á þessum tveimur þingmönnum og ekki linna látum fyrr en þeir hafa yfirgefið flokkinn. Það bendir allt til þess að forysta VG óski einskis heitar en að Guðfríður Lilja og Ögmundur yfirgefi flokkinn, þannig að VG komist í rólegu deildina.“
- Er „órólega deildin“, sem svo var kölluð, að fara að stofna nýjan flokk?
„Ögmundur og Guðfríður Lilja eru enn í VG. Ég er hins vegar búin að yfirgefa VG og vinn núna að því að stofna nýjan flokk. Við munum kynna grundvallarstefnu flokksins í febrúar og gera fólki kleift að ganga til liðs við hann.“
- Viltu þau Ögmund og Guðfríði Lilju innanborðs?
„Allir sem eru sammála stefnu flokksins í grundvallaratriðum eru velkomnir í flokkinn, þ.m.t. Ögmundur og Guðfríður Lilja,“ segir Lilja Mósesdóttir þingmaður.