Ræddu jarðhitaverkefni Íslendinga

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í gær fund með …
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti í gær fund með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon,

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, átti í gær fund í Abu Dhabi með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, en þeir sækja báðir Heimsþing hreinnar orku sem þar er haldið.

Á fundinum var einkum rætt um aukna nýtingu hreinnar orku til að hamla gegn loftslagsbreytingum. Slíkar aðgerðir eru grundvallarþáttur í stefnumörkun Ban Ki-moon á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Forseti Íslands gerði grein fyrir jarðhitaverkefnum á vegum Íslendinga erlendis, t.d. í Kína, Indlandi, Filippseyjum, Afríku, Suður-Ameríku og Evrópu. Uppbygging hitaveitna, með sama hætti og framkvæmd var í Reykjavík á sínum tíma, gæti nýst fjölmörgum borgum í Kína til að draga úr kolanotkun.

Þá gerði forseti Íslands grein fyrir góðri reynslu af því að nota jarðvarma til að þurrka matvæli og gæti útbreiðsla slíkra vinnsluaðferða orðið verulegt framlag til að auka geymsluþol matvæla og styrkja þar með fæðuöryggi í veröldinni. Hvatti forseti til að stofnanir Sameinuðu þjóðanna efndu til víðtæks samstarfs í þessu skyni og skýrði frá heimsókn sérfræðinga Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) til Íslands á síðasta ári en markmið hennar var m.a. að kanna marga þætti jarðhitanýtingar, segir á vef forseta Íslands.

Ban hefur áhuga á endurreisn efnahagslífsins á Íslandi

Forseti Íslands gerði framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna grein fyrir vaxandi samvinnu á Norðurslóðum og alþjóðlegri ráðstefnu um bráðnun jökla á Himalajasvæðinu sem haldin var á Íslandi í fyrra. Mikilvægt væri að efla samstarf ríkja á Himalajasvæðinu þar eð bráðnun jökla þar stofnaði vatnsbúskap nær tveggja milljarða manna í hættu. Þar gæti góð reynsla af samvinnu á Norðurslóðum verið mikilvæg fyrirmynd.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hafði einnig verulegan áhuga á endurreisn efnahagslífsins á Íslandi og hvernig á því stæði að Íslendingum gengi betur að ná sér á strik en mörgum ríkjum innan Evrópusambandsins. Óstöðugleiki í fjármálum evrusvæðisins væri verulegt áhyggjuefni.

Hefur áhuga á að þiggja boð um að koma til Íslands

Einnig kom fram að Ban Ki-moon hefur mikinn áhuga á að þiggja boð forseta Íslands og íslenskra stjórnvalda um að heimsækja landið og kynna sér nýtingu hreinnar orku, jöklarannsóknir og samvinnu á Norðurslóðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert