Samkvæmt stefnu slitastjórnar Landsbanka Íslands er sjö fyrrverandi stjórnendum bankans stefnt til þess að greiða skaðabætur auk 25 vátryggingafélögum sem gáfu út ábyrgðartryggingar fyrir stjórnarmenn og stjórnendur bankans.
Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjórum Landsbanka Íslands, er stefnt, fjórum af fimm fyrrverandi bankaráðsmönnum bankans, þeim Kjartani Gunnarssyni, Svöfu Grönfeldt, Andra Sveinssyni og Þorgeiri Baldurssyni, og Jóni Oddleifi Þorsteinssyni, fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar Landsbanka Íslands.
„Gerð er krafa um að hinir stefndu stjórnendur greiði stefnanda skaðabætur vegna gáleysis sem leiddi til þess að greiddir voru verulegir fjármunir út úr Landsbanka Íslands hinn 6. október 2008 þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær,“ segir í stefnunni.
Þann dag, sem hafi verið síðasti starfsdagur bankans áður en hann var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu, hafi umtalsverðir fjarmunir runnið frá honum og til verðbréfasjóða Landsvaka hf., Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. og MP fjárfestingabanka.
Fram kemur að miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands 6. október 2008 hafi samtals runnið jafnvirði um 34,7 milljarða króna út úr Landsbanka Íslands og til þessara félaga. Kröfur sem keyptar hafi verið af Landsvaka hafi verið á umtalsverðu yfirverði og greiðslur til Straums og MP banka hafi verið greiddar eftir að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafi tilkynnt um yfirvofandi hrun íslenska bankakerfisins og eftir að bankanum hafði verið lokað þennan dag.
„Á því er byggt að bankaráðsmönnum, bankastjórum og forstöðumanni fjárstýringar Landsbanka Íslands hafi verið eða mátt vera ljóst að frá 29. september 2008, þegar tilkynnt var um fyrirhugaða yfirtöku íslenska ríkisins á Glitni banka hf. hafi legið fyrir að Landsbanki Íslands var í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum og uppfyllti ekki kröfur um eigið fé,“ segir ennfremur í stefnunni.
Þá segir að á þeim degi þegar umræddar greiðslur áttu sér stað hafi Landsbanki Íslands verið ógjaldfær meðal annars að kröfu breska fjármálaeftirlitsins um tafarlausa greiðslu á 200 milljónum punda til þess að styðja við útflæði fjármuna af Icesave-innlánsreikningunum í Bretlandi.
„Hinum stefndu stjórnendum bankans var eða mátti vera ljóst að með því að grípa ekki til aðgerða til þess að stöðva útgreiðslu fjármuna væri veruleg hætta á því að Landsbanki Íslands yrði fyrir tjóni og að kröfuhöfum yrði mismunað,“ segir síðan í stefnunni.