Steingrímur J. Sigfússon situr áfram næst forsetastóli, forseta til vinstri handar, á Alþingi þótt hann sé ekki lengur fjármálaráðherra. Síðustu fjörutíu árin hefur fjármálaráðherra setið í þessum stól, með einni undantekningu.
Forsætisráðherra ákveður sætaskipan ráðherra á Alþingi. Ákvörðun er í raun tekin fyrir fyrsta ríkisstjórnarfund hverrar ríkisstjórnar því sætaskipanin endurspeglar röðina við ríkisstjórnarborðið.
Í Morgunblaðinu í dag segir að frá því Jóhann Hafstein tók við forystu í ríkisstjórn, 1970, hefur forsætisráðherra jafnan setið næst forseta, honum til hægri handar, og utanríkisráðherra við hlið hans enda hefur það oft verið formaður annars stjórnarflokksins. Fjármálaráðherra hefur setið hinum megin forsetastóls, forseta til vinstri handar.