Stenst ekki skoðun

Kjartan Gunnarsson
Kjartan Gunnarsson mbl.is/Ómar

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi bankaráðsmaður í Landsbanka Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af stefnu slitastjórnar Landsbankans á hendur honum þar sem hann segir það mat sitt og lögmanna sinna að málshöfðunin standist ekki skoðun.

„Ég hef frá upphafi lagt mig fram um að veita bæði skilanefndinni og slitastjórninni allar nauðsynlegar upplýsingar og gert allt sem í mínu valdi stendur til að aðstoða þessa aðila við sinn starfa. Að þeir skuli hafa kosið að leggja í þessa vegferð er mér mikil vonbrigði. Ég kvíði hins vegar ekki niðurstöðu dómstóla í málinu og mun nú hefjast handa við vörn mína á þeim vettvangi,“ segir Kjartan meðal annars í yfirlýsingu sinni.

Kjartan segir að málshöfðunin á hendur honum sé byggð á því að honum sem bankaráðsmanni Landsbanka Íslands hf. hafi mátt vera það ljóst í upphafi dags 6. október 2008 að bankinn væri ógjaldfær og borið að gera ráðstafanir til að tryggja að ekki færu greiðslur út úr bankanum þennan dag.

Kjartan segir að Landsbankinn hafi verið gjaldfær í upphafi dags 6. október 2008. „Bankinn átti nægt fé í íslenskum krónum og beiðni um gjaldeyrisaðstoð var til afgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands. Forsendur til að loka bankanum í upphafi þess dags voru því alls ekki fyrir hendi og slík aðgerð hefði skaðað bæði bankann sjálfan gríðarlega og sett af stað keðjuverkun með ófyrirséðum afleiðingum. Þegar það lá fyrir að umbeðin aðstoð fengist ekki hjá Seðlabanka Íslands var umsvifalaust gripið til viðeigandi ráðstafana á grundvelli laga nr. 125/2008, hinna svokölluðu neyðarlaga, sem samþykkt voru á Alþingi að kvöldi 6. október 2008,“ segir í yfirlýsingu Kjartans.

Hann tekur einnig fram að þær greiðslur sem málið varði hafi ekki komið á nokkru stigi til umfjöllunar hjá bankaráði enda ekki þess eðlis að þær ættu erindi þangað. „Eftir því sem ég kemst næst var í öllum tilvikum um skuldbindingar að ræða sem bankanum bar að standa við samkvæmt eldri samningum. Mér er það því með öllu óskiljanlegt af hverju einmitt þessar greiðslur eru grundvöllur kröfunnar á hendur mér,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

 Yfirlýsingu Kjartans fylgdi einnig stefna slitastjórnar á hendur fjölmörgum fyrrverandi stjórnendum bankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert