„Svara strax, Ögmundur“

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sverrir Vilhjálmsson

„Ég er ósammála Ögmundi Jónassyni um að nú eigi að afturkalla ákæruna á hendur Geir Haarde og hissa á því að ráðherra dómsmála vilji stöðva réttarhald í miðjum klíðum,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á heimasíðu sinni í dag.

Mörður gagnrýnir Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, harðlega vegna greinar hans í Morgunblaðinu í dag þar sem Ögmundur lýsir þeirri skoðun sinni að rangt hafi verið af Alþingi að ákæra Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, fyrir Landsdómi haustið 2010.

Spyr Mörður að því hvað Ögmundur eigi við í greininni með því að atkvæðagreiðslan á Alþingi hafi tekið á sig „afskræmda flokkspólitíska mynd“ og hvort hann sé með því að taka undir þá skoðun sjálfstæðismanna að Samfylkingin hafi skipulagt atkvæðagreiðsluna þannig að hennar ráðherrar slyppu við ákæru.

„Ögmundur hefur auðvitað fullan rétt til að taka afstöðu til tillögu Bjarna Benediktssonar, og gera opinbera syndajátningu í Mogganum. Annað mál er hinsvegar að ata auri fólk sem hann á ekkert sökótt við – og starfar með í mikilvægustu ríkisstjórn síðustu áratuga á Íslandi,“ segir Mörður og lýkur greininni með orðunum: „Svara strax, Ögmundur.“

Heimasíða Marðar Árnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert