Landhelgisgæslan varar við mikilli ölduhæð á suðurmiðum og suðurdjúpi og suðausturmiðum og suðausturdjúpi í nótt og fram undir miðnætti á morgun. Spáð er allt að 14 metra ölduhæð en það er í meira lagi. Til dæmis siglir Herjólfur ekki til Vestmannaeyja ef ölduhæðin er meiri en fjórir metrar.
Þá má nefna að 14 metrar eru á við fjögurra til fimm hæða fjölbýlishús.
Að sögn starfsmanns hjá Landhelgisgæslunni er sjaldgæft að ölduhæðin sé svo mikil.
Jafnframt er varað við allt að 35 metra á sekúndu fárviðri á þessum hafsvæðum.
Eru sjófarendur því hvattir til að sýna ýtrustu varúð.