Vill að stjórnendur MAST fari frá

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði á Alþingi í dag að trúverðugleiki Matvælastofnunar (MAST) væri að engu orðinn eftir að upplýst var að leyft hefði verið að selja áburð með of miklu magni af kadmíum þungmálmi og að iðnaðarsalt hefði í langan tíma verið notað í matvælaframleiðslu hér á landi.

Sagði Þór að trúverðugleiki MAST yrði ekki endurheimtur á meðan sömu stjórnendur væru þar við stjórn. Sagði hann eðlilegt að þeir færu frá. Hrópað var ítrekað úr þingsal á meðan á ræðunni stóð að það væri ekki hægt að hlusta á þennan málflutning.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði að eftirlitið í þessum efnum hefði ljóslega brugðist og að viðbrögðin við þessum atburðum væru fyrst og fremst þau að sýna með trúverðugum aðgerðum að svona lagað endurtæki sig ekki.

Hann lagði ennfremur áherslu á ábyrgð matvælaframleiðenda á að þeir notuðu réttar vörur til framleiðslu sinnar og eftirlitshlutverk þeirra sjálfra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert