Á ábyrgð Ögmundar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Afstaða mín mun koma hér fram í atkvæðagreiðslum og ég mun rökstyðja hana eins og ég tel þörf á. Ögmundur Jónasson er að skrifa og lýsa sínum sjónarmiðum og það er bara hans mál,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurður um grein Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í Morgunblaðinu í gær þar sem hann sagði að það hefði verið rangt af Alþingi að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.

Aðspurður hvort hann teldi óeðlilegt að ráðherra dómsmála tjáði sig um málið með þessum hætti segir Steingrímur: „Hann hlýtur að hafa hugsað það mjög vel og komist að þeirri niðurstöðu að hann væri í aðstöðu til að gera þetta sem hann hefur gert. Og þá er það bara á hans ábyrgð.“

Steingrímur ætlar ekki að styðja þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að landsdómsákæran verði dregin til baka sem gert er ráð fyrir að verði tekin fyrir á föstudaginn. Spurður að því hvort hann muni styðja tillögu um að þingsályktunartillagan verði tekin af dagskrá þingsins segir Steingrímur:

„Ég mun einfaldlega bara skoða hana. Alþingi verður að gera það upp við sig á einhverju stigi málsins hvort það ætlar að fara lengra með það og það er bara mismunandi tegund af þinglegri meðferð. Umræðan fer að sjálfsögðu fram og svo velta menn því fyrir sér hvort málið eigi erindi lengra og mér virðast margir vera á því að það sé rétt að láta á það reyna hvort vilji meirihlutans sé yfir höfuð að málið fari lengra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert