Frumvarp samið um staðgöngumæðrun

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillögu um að skipaður verði starfshópur, sem undirbúi frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það frumvarp verði lagt fram svo fljótt sem verða má.

Skiptar skoðanir voru á Alþingi um tillöguna og afstaða þingmanna fór ekki eftir flokkslínum. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. að meirihluti þingsins væri að fylgja Sjálfstæðisflokknum í að markaðsvæða meðgönguna.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, flokkssystir hennar, sagði hins vegar að ekki væri verið að greiða atkvæði um að lögleiða eigi staðgöngumæðrun heldur einungis að hafin verði vönduð vinna um málið. Lagði hún og fleiri þingmenn áherslu á að efnisleg umræða um staðgöngumæðrum færi fram þegar frumvarpið kæmi til afgreiðslu á þingi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Sagði hún að allir færustu sérfræðingar, hagsmunaaðilar og þingmenn myndu nú fá tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að og vonandi leysa úr þeim álitamálum, sem komið hefðu fram. „Vonandi mun okkur takast að sníða framúrskarandi löggjöf sem passar við íslenskar aðstæður,“ sagði hún. 

Árni Johnsen, flokksbróðir hennar, sagði hins vegar að sagt hefði verið frá fyrstu staðgöngumóðurinni í fyrstu Mósebók. Strax þá hefðu komið upp áleitnar spurningar um siðferði og réttindi. Sagði Árni það sína skoðun, að hugmyndin um staðgöngumæður gæti aldrei tryggt mannsæmandi mannréttindi barns.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram breytingartillögu þess efnis, að í stað þess að starfshópi verði falið að undirbúa frumvarp verði starfshópnum falið að skoða álitamál um staðgöngumæðrun. Sá hópur skili áliti til velferðarráðherra sem skili þingi skýrslu. Sagði Valgerður skynsamlegt, að stíga lítil skref í svo viðkvæmu máli. Þessi tillaga var felld með 32 atkvæðum gegn 18.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka