Gagnrýna reglur um hvíld flugmanna

Að óbreyttum reglum gæti flugmaður þurft að lenda farþegaþotu eftir …
Að óbreyttum reglum gæti flugmaður þurft að lenda farþegaþotu eftir 20-21 klst. vakttíma, að sögn Evrópusambands flugmannafélaga. mbl.is/Ómar

Þó drög að nýjum reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) um hvíld flugmanna sem gefin voru út í dag, séu skref í rétta átt, þá þarf meira til að verja öryggi farþega, að mati Evrópusambands flugmannafélaga.

Í tilkynningu frá Evrópusambandi flugmannafélaga í kvöld segir að vísindarannsóknir gefi til kynna að nauðsynlegt sé að setja reglur um vakt- og hvíldartíma flugmanna til að öruggt sé að þeir séu vel vakandi til að koma farþegum sínum öruggum á áfangastað. Enn og aftur líti hins vegar EASA fram hjá slíkum rannsóknum.

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) er meðlimur í Evrópusambandi flugmannafélaga. Í frétt frá sambandinu er haft eftir formanni þess að hagsmunaaðilar hafi sent um 50 þúsund athugasemdir á fyrstu drög EASA að reglugerðinni í desember 2010 og hafi sent skýr skilaboð til höfunda hennar um að það sé gallað og gera verði á því breytingar.

Þó að jákvæðar breytingar sé að finna í nýju reglunum innihaldi þær enn ákvæði sem Samband flugmannafélaga gagnrýnir, m.a. um óhóflegan, leyfilegan vinnutíma í kjölfar bakvakta.

„Ef ekkert breytist gæti flugmaður þurft að lenda farþegaþotu eftir 20-21 klst. vakttíma. Þetta er ekki það sem farþegar eiga skilið! Farþegar og flugmenn vænta þess að lögvald EU setji sterk og örugg lög í þágu almennings,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert