Grunur um falsaðar númeraplötur

Skráningarnúmer frá Umferðarstofu. Mynd úr safni.
Skráningarnúmer frá Umferðarstofu. Mynd úr safni. Árni Sæberg

Lögreglan á Selfossi hefur fengið ábendingu um erlenda vefsíðu þar sem hægt er að fá skráningarmerki fyrir bifreiðir sem eru nánast nákvæmlega eins og þau sem Umferðarstofa úthlutar. Þá var lögreglu tilkynnt um bíl sem hugsanlega hafi verið á slíkum merkjum en það hefur þó ekki verið staðfest.

„Okkur sýnist þetta vera nánast eins. Ef menn eru með reglugerðina í höndunum geta þeir séð allar stærðir þar. Það getur verið vandasamt að þekkja þetta í sundur. Þetta er ekki ólíkt því þegar menn eru að falsa peningaseðla. Það er ekki alltaf augljóst að það sé falskur seðill á ferð,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi.

Enginn ökumaður hefur verið stöðvaður fyrir að aka á slíkum númeraplötum en lögreglunni barst ábending um að sést hefði til bíls á þeim á höfuðborgarsvæðinu. Það getur varðað við hegningarlög að nota fölsuð skráningarmerki og við því liggur fangelsisdómur að sögn Þorgríms.

„Það er orðið hegningarlagabrot að setja þessi númer á bíla. Þá eru menn að villa á sér heimildir og það er náttúrlega alvarlegt brot,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert