Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, styður tillögu sjálfstæðismanna um að landsdómsákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði dregin til baka af Alþingi. Þetta kom fram á Facebook-síðu hans í gærkvöldi.
Gert er ráð fyrir að tillagan verði tekin til umræðu í þinginu á föstudaginn.
Gunnar tekur ennfremur undir með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra sem ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að rangt hefði verið að ákæra Geir. Gunnar lýsir sig ennfremur sammála grein Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors, um lagalegar hliðar málsins sem einnig birtist í blaðinu í gær.
Orðrétt segir í færslu Gunnars:
„Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ritar grein í Moggann í dag [í gær] þar sem hann skýrir hvers vegna hann styður tillögu um að fella niður málið gegn Geir Haarde. Greinin skýrir þetta afar vel og læt ég hér fylgja slóð á hana. http://ogmundur.is/annad/nr/6130/ Ég vil líka benda á grein Stefáns Más Stefánssonar um sama mál í sama blaði. Sú grein skýrir út frá lögfræðilegum vinkli hvaða mistök alþingi gerði. Sjálfur styð ég tillöguna heilshugar og tek undir rök Ögmundar og Stefáns.“