Fréttaskýring: Lýsing ekki öllum jafn eftirsóknarverð

Svona lítur ljóshjúpurinn yfir höfuðborgarsvæðinu út frá Bláfjöllum.
Svona lítur ljóshjúpurinn yfir höfuðborgarsvæðinu út frá Bláfjöllum. Ljósmynd/Snævarr Guðmundsson

Fæstir hafa líklega hugsað sér næturmyrkrið sem náttúruauðlind og vilja lýsa hjá sér sem mest þeir geta í svartasta skammdeginu. Þó eru sífellt fleiri að komast á þá skoðun að fleira búi í myrkrinu en áður var talið og jafnvel megi nota það til markaðssetningar landsins. Einn fárra sem berjast fyrir því að stjórnvöld komi böndum á ljósmengun hér á landi er Snævarr Guðmundsson landfræðingur, en hann kortlagði ljósmengun yfir höfuðborgarsvæðinu í ritgerð sinni til BS-gráðu við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Ein helsta ástæða þess að Snævarr réðst í skoðun ljósmengunar var sú að gerðar hafa verið rannsóknir erlendis sem sýna fram á hvernig ástatt er í helstu borgum. Engin rannsókn hafði verið gerð hér á landi en um það rætt að þótt ljósmengun teljist í fjölmörgum borgum mikil væri hún engu að síður meiri í Reykjavík. „Til þess að staðreyna þetta þurfti að hafa samanburð og ég notaði tvær dæmigerðar borgir í Evrópu,“ segir Snævarr. „Í samanburði við þær er ljósmengun miklu meiri hér, og því má segja að fótur sé fyrir þessari fullyrðingu.“

Mun meira ljósflæði

Ljósmengunina má skoða á margan hátt, meðal annars sem áhrif lýsingar á himininn fyrir ofan lýsingarstað, svonefndan ljóshjúp sem má sjá á meðfylgjandi mynd, en einnig sem ljósflæði á lýsingarstað.

Ljósflæði, mælt í mælieiningunni lúmen, ef mælt sem meðalbirtunotkun á íbúa í sveitarfélagi, er um 2.900 lúmen á höfuðborgarsvæðinu, eða því svæði sem Orkuveita Reykjavíkur sér um. Það er umtalsvert meira en í Padua á Ítalíu, 220 þúsund manna borg og í Ösnabruck í Þýskalandi, 160 þúsund manna borg, þar sem meðalbirtunotkun er um 1.300 lúmen. Og í Tuscon í Arizonaríki, þar sem bjuggu um 800 þúsund manns þegar mæling var gerð, var meðalbirtunotkun um 700 lúmen. „Ljósmengun er afleiðing af þessu og þetta hefur því meiri áhrif á himininn hjá okkur en í samanburðarborgum. Þá má spyrja, hvers vegna þurfum við svona mikið ljós?“

Leiðir til að minnka ljósmengun eru meðal annars þær að reyna að minnka ljósflæði en einnig skerma birtuna af. Þannig má sjá að í grónum hverfum er mun minni ljósmengun en í þeim nýrri.

Brugðist verður við

Nú kann að vera að eitthvað fari að draga úr ljósmengun í Reykjavík því umhverfisráðherra upplýsti það á Alþingi á mánudagskvöld að innan skamms fengi skilgreining á ljósmengun stað í byggingarreglugerð. „Í drögum að þeirri reglugerð, sem gert er ráð fyrir að taki gildi á næstu vikum, er sett fram sú skilgreining að ljósmengun sé þau áhrif sem verða á umhverfið af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri,“ sagði Svandís Svavarsdóttir og bætti við að gerð væri tillaga um að í reglugerðinni yrði ákvæði um að við hönnun á útilýsingu skyldi gæta þess að ekki yrði um óþarfa ljósmengun að ræða frá flóðlýsingum mannvirkja og frá götu- og veglýsingu.

Þannig á að tryggja að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og nota skuli skermaða lampa sem varpi ljósi niður og valdi þess vegna minni glýju og næturbjarma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert