Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag að Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, hafi skrökvað vísvitandi í ræðustól í gær. Einar sagðist ennfremur harma ummæli Þórs um sig.
Þór ræddi um eftirlit Matvælastofnunar í ræðustól í gær og sagði að það hafi verið skipuleg stefna hjá Matvælastofnun að hrófla ekki við hagsmunum söluaðila áburðar. Þá sagði hann um arfleifð Sjálfstæðisflokksins að ræða, og að sá sem hylmdi yfir með áburðarsölu hafi verið Einar K. Guðfinnsson sem þá var landbúnaðarráðherra. Hann sagði einnig að áburði hafi verið og verði áfram dreift án prófana og ráðuneytið hafi sjálft spilað með árið 2007 þegar það tók afstöðu með banni um að veita upplýsingar um innihald áburðar sem hafði verið seldur
Einar K. sagði að málið hefði skömmu áður verið rætt í atvinnuveganefnd þingsins þar sem Þór Saari var viðstaddur, og þar hafi málið verið skýrt. Einar sagðist hafa barist fyrir því að Matvælastofnun mætti birta upplýsingar en frumvarp þess efnis hefði ekki náð fram að ganga á Alþingi. Engu að síður hafi stofnuninni verið bent á að hún gæti haft afskipti af innflutningi.
Þór fór sjálfur í ræðustól í dag og sagðist einfaldlega hafa bent á, að þegar Áburðarverksmiðjan kærði til ráðuneytis ákvörðun um að birta upplýsingar um innihald áburðar hafi ráðherrann, Einar, úrskurðað í málinu og seljanda í hag. Þór sagði slíka stjórnsýslu ótæka og að hann hefði átt að taka upplýsingaskyldu og almannahag fram yfir hag seljandans.
Einar benti þá á að hann hefði farið að lögum og spurði á móti hvort hann hefði átt að fara gegn sérfræðingum ráðuneytisins. Einar sagði að það hefði verið ámælisverð stjórnsýsla að taka ákvörðun um að birta þessar upplýsingar, enda hefði það farið gegn lögum, og þar með ráðherrann. Hann sagðist hafa gert það sem honum bar að gera og lagði fram frumvarp um að þessar upplýsingar hefði mátt gera opinberar.