Setja þarf tappa í innleiðingar Alþingis á EES-reglum á meðan skoðað er hvort þingið fari á svig við stjórnarskrá með því að samþykkja þær. Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, á Alþingi í dag og vísaði til orða utanríkisráðherra.
Gunnar Bragði las upp orð Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra sem hann lét falla í viðtali við Ríkisútvarpið í gær. Viðtalið var tekið í tilefni af nýrri skýrslu um EES-samninginn sem unnin var í Noregi. „Ég held að þróunin hafi verið svo hröð síðan að ég held að við séum komin út fyrir það, og það sé algjörlega nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til þess að heimila í reynd þessar ákvarðanir og þetta valdaframsal sem er í dag,“ sagði Össur.
„Mér sýnist að ráðherra sé að segja að þær ákvarðanir sem teknar eru um innleiðingar á EES-reglum standist ekki stjórnarskrá, eða standist trúlega ekki stjórnarskrá,“ sagði Gunnar Bragi. Hann segir að skoða verði hvort breyta þurfi stjórnarskránni til að hægt sé að halda áfram að framselja vald þingsins með þessum hætti, og skoða hvort taka þurfi upp EES-samninginn hvað þetta varðar. Hann sagðist jafnframt ætla að taka málið upp í utanríkismálanefnd.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, blandaði sér í umræðuna og sagði margt líkt með Noregi og Íslandi. Hann sagði skýrsluna norsku afar umfangsmikla, upp á 900 síður, og hún yrði til umfjöllunar næstu misseri. Hann sagði mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast með umræðunni og nauðsynlegt að Íslendingar stæðu við hlið Norðmanna við þessa vinnu. Hann sagði ljóst að Noregur væri ekki á leið í Evrópusambandið en þessi skýrsla gæti kallað á breytingar, hugsanlega endurskoðun á EES-samningnum.