Staðfesting á að málið sé pólitískt

Illugi Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

„Það er áhugavert og mjög til umhugsunar að í þessari ályktun skuli vera sérstaklega tekið fram að það sé nauðsynlegt að réttarhöldin fari fram yfir Geir Haarde vegna þess a þau séu hluti af pólitísku uppgjöri við ákveðna hugmyndafræði, það er við frjálshyggjuna. Það sýnir hvaða hugsun er að baki,“ segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Illugi vísar þarna til ályktunar sem stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík sendi frá sér í gær þar sem þingmenn flokksins voru hvattir til þess að vera sjálfum sér samkvæmir í atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að landsdómsákæran gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, verði dregin til baka.

Allir þingmenn VG greiddu á sínum tíma atkvæði með því að Geir ásamt þremur öðrum fyrrverandi ráðherrum yrði ákærður. Niðurstaðan varð hins vegar sú að einungis var samþykkt að ákæra Geir með 33 atkvæðum gegn 30.

„Það er ekki síður áhugavert að einstakir þingmenn úr röðum vinstri grænna hafi tekið undir þessa yfirlýsingu flokksfélagsins í Reykjavík,“ segir Illugi og vísar þar til ummæla Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG, í gær. Hann bætir við að það hafi verið augljóst allt frá upphafi að málið væri fyrst og síðast pólitískt.

„En það er ágætt í sjálfu sér að þarna skuli koma fram nákvæmlega og með mjög skýrum og afgerandi hætti að þetta sé skoðunin. Það hafa ekki komið fram nein mótmæli þingmanna vinstri grænna gegn þessari áherslu. Það er miklu heldur að menn hafi tekið undir þessa yfirlýsingu og það sýnir hvað liggur að baki,“ segir Illugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka