„Mér finnst þetta ótrúlega skrítið og í raun og veru þungbært fyrir mig að vera samábyrgur fyrir því að hafa í embætti dómsmálaráðherra sem lítur á það sem sjálfsagðan hlut að Alþingi hafi afskipti af dómstól sem er tekinn til starfa. Það ógnar öllu réttaröryggi í landinu,“ segir Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is.
Þráinn lét þessi ummæli falla aðspurður um grein Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra og samflokksmanns hans, í Morgunblaðinu í gær þar sem Ögmundur sagði það hafa verið rangt af Alþingi að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi haustið 2010.
„Ef dómsmálaráðherrann telur það í lagi að fara inn í dómstólinn núna langar mig að vita hvort hann telur það í lagi að fara inn í dómsmál yfirleitt eða eingöngu þegar stjórnmálamenn eiga í hlut,“ segir Þráinn ennfremur. Hann segist ekki ætla að styðja þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að ákæran á hendur Geir verði dregin til baka.
Aðspurður að lokum hvort hann telji að Ögmundur eigi að segja af sér vegna málsins svarar Þráinn: „Já, að sjálfsögðu.“