8 ára fangelsi

Hæstiréttur þyngdi í dag refsingu yfir karlmanni, sem framdi kynferðisbrot gegn þremur stúlkubörnum. Var maðurinn dæmdur í 8 ára fangelsi en Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt manninn í 7 ára fangelsi.

Var maðurinn dæmdur til að greiða einni stúlkunni þrjár milljónir króna í bætur, annarri 800 þúsund krónur og þeirri þriðju 400 þúsund krónur.

Nafn mannsins er ekki birt í dómi Hæstaréttar af tillitssemi við stúlkurnar sem hann braut gegn.

Hæstiréttur segir, að brot mannsins hafi verið mjög gróf og alvarleg. Brot hans gegn einni stúlkunni, sem er fædd 2001, voru margendurtekin en þar á meðal voru sex nauðgunarbrot en þau voru framin þegar stúlkan var 7-8 ára. Brotin voru framin á heimili mannsins þar sem stúlkan dvaldi oft vegna tengsla mannsins við móður hennar.  

Styrkur og einbeittur brotavilji

Þá var það metið manninum til refsiþyngingar að hann tók í mörgum tilvikum hreyfimyndir og ljósmyndir af athæfi sínu gagnvart stúlkunni og segir Hæstiréttur að af því megi ráða að brotavilji hans hefði verið mjög styrkur og einbeittur.  Að auki fundust 8054 ljósmyndir og 623 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt og í kynferðisathöfnum með dýrum, í fórum mannsins.

Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa árið 2001 brotið gegn 11 ára dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar. Loks var hann fundinn sekur um að hafa á síðasta ári káfað á níu ára stúlku sem var gestkomandi á heimili hans. 

Einu sinni áður hefur sakborningur verið dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni. Sá dómur var kveðinn upp árið 2008. Sakborningur var þá dæmdur til átta ára fangelsisvistar vegna brota gegn stjúpdóttur sinni.

Kært árið 2010

Móðir einnar stúlkunnar kærði manninn til lögreglunnar í Vestmannaeyjum í maí árið 2010 fyrir kynferðisbrot. Maðurinn var handtekinn og yfirheyrður og hald lagt á tölvubúnað hans en honum var síðan sleppt. Maðurinn var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald í júní í fyrra og hefur setið í varðhaldi síðan. Hörð gagnrýni kom fram á lögregluna á Selfossi fyrir að krefjast ekki gæsluvarðhalds yfir manninum strax í kjölfar kærunnar.

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóm um bætur til stúlknanna. Héraðsdómur sagði m.a. um bótakröfu yngstu stúlkunnar, að maðurinn hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi í tvö ár með ófyrirséðum afleiðingum. Hann hafi gengið svo langt að hann hafi myndað barnið meðan hann braut á því.

Þrátt fyrir að lögreglu hafi ekki tekist að sanna dreifingu á myndunum væri ekki hægt að útiloka að þeim hafi verið dreift. Ef slíkt efni sé komið í dreifingu sé ómögulegt að ná því til baka af veraldarvefnum með tilheyrandi skaða og óöryggi fyrir barnið um alla framtíð.

Þá sýni gögn frá kennurum stúlkunnar og Barnahúsi hversu alvarlegar afleiðingar brot mannsins hafi haft á hana. Erfitt sé að meta skaðann sem jafnalvarleg brot geti valdið svo ungu barni til framtíðar og geti liðið langur tími þar til afleiðingarnar komi í ljós. Sé ljóst að hún neyðist til að læra að lifa með þessa slæmu reynslu sína og horfast í augu við hana sem sé þungur baggi að bera allt lífið. Hún muni fyrirsjáanlega þurfa á aðstoð sérfræðinga að halda við að vinna úr afleiðingunum í fjölmörg ár ef ekki ævilangt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert