Dragnótaveiðar áfram bannaðar

Dragnótarmenn við veiðar.
Dragnótarmenn við veiðar. Morgunblaðið/Jim Smart

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm yfir íslenska ríkinu en útgerðarfélag krafðist viðurkenningar á því að það væri óbundið af banni við veiðum með dragnót í Skagafirði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði á með reglugerð.

Málið snýr að því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sendi frá sér tilkynningu 15. janúar 2010 þar sem sagði að sjávarútvegsráðherra hefði ákveðið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að setja af stað verkefni þar sem kannaðir yrðu kostir þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inni á fjörðum yrðu takmarkaðar frá því sem þá var. Markmiðið var að treysta grunnslóðir sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvæna veiði.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf svo út 31. maí 2010 reglugerð um bann við dragnótaveiðum þar sem allar dragnótaveiðar voru bannaðar, þar á meðal í Skagafirði

Útgerðarmenn dragnótabáta gagnrýndu mjög bannið og íbúar Grímseyjar sendu frá sér bænarskjal vegna málsins en bannið hefur mikil áhrif á afkomu útgerða þar og margra íbúa. Útgerðarfélagið Sigurbjörn ehf ákvað að höfða umrætt mál þar sem dragnótaveiðar voru drjúgur hluti tekna þess. Litið er á málið sem einskonar prófmál í deilunum við ráðuneytið.

Málið var höfðað á þeim grundvelli að réttur útgerðarinnar til veiða með dragnót sé atvinnuréttindi sem njóti verndar stjórnarskrár. Byggði Sigurbjörn á því að vildi ráðherra innleiða nýja stefnu hefði honum borið að gera það með því að leggja frumvarp fyrir Alþingi. Með því væri tryggt að geðþótti einstakra ráðherra gæti aldrei verið grundvöllur skerðingar atvinnuréttinda.

Héraðsdómur féllst ekki á það að takmarkanirnar brytu í bága við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar enda væru með reglugerðinni á engan hátt settar skorður á almenna heimild manna til að mega hafa atvinnu af fiskveiðum.

Þá vísaði dómurinn til þess að ráðherra skyldi, áður en ákvarðanir eru teknar um skiptingu veiðisvæða milli veiðarfæra, leita álits samtaka þeirra útgerðar- og sjómanna sem ætla mætti að skipting veiðisvæða varðaði mestu hverju sinni. Dómurinn taldi þessu skilyrði laganna fullnægt með þeirri kynningu sem fram fór af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á fyrirhuguðum tillögum að banni við dragnótaveiðum.

Bent er á að ráðherra bárust fjölmargar umsagnir sem ýmist voru með eða á móti banninu. Ekki er hins vegar kveðið á um að ráðherra sé skylt að hlíta áliti þeirra aðila, sem hann leitar álits hjá, eða taka tillit til þeirra áður en hann tekur ákvörðun um hvaða leið skuli farin við setningu reglugerðar.

Hæstiréttur vísaði til forsendna héraðsdóms í dómi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert