Steingrímur J. Sigfússon segist ekki telja skynsamlegt að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Mikilvægt sé að fá efnislega niðurstöðu í það mál. Þetta kemur fram í viðtali við formann Vinstri grænna í Bændablaðinu í dag.
Hann sé hins vegar þeirrar skoðunar að Íslandi sé betur borgið utan sambandsins og hafi styrkst í þeirri afstöðu. Hann dregur enga fjöður yfir að málið hafi reynt á hann og Vinstri græn en flokkurinn og Steingrímur sjálfur hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir svik á kosningaloforðum sínum varðandi ESB-málin.
Neyddumst til að ganga lengra í málamiðlun
„Þetta hefur vissulega verið mjög erfið vegferð. Ég dreg ekkert úr því. Það hefur reynt mjög á okkur og við neyddumst til að ganga lengra í málamiðlun á þessu sviði en ég hafði reiknað með, það viðurkenni ég fúslega. Í því ljósi ber að skoða ummæli mín fyrir kosningar. Ég reiknaði ekki með því að þetta yrði svona hart sótt en það var einfaldlega niðurstaðan að grundvöllurinn fyrir því að af þessari ríkisstjórn gæti orðið var einhvers konar lending í þessu máli á þeim nótum sem varð.“